Breytingar

Eftir að hafa orðið Íslandsmeistarar fjórum sinnum í röð á árunum 2009-2012 breyttum við aðeins um takt. Við vorum búnir að sanna að við værum bestir og hungrið ekki jafnt mikið í Íslandsmeistaratitilinn og áður. Einnig er öllum ljóst að kostnaður við að verða Íslandsmeistarar er töluverður. Þröstur Þórhalls og Stefán Kristjáns áttu góð ár með okkur og áttu hlut í árangrinum. En þegar þeim buðust áhugaverð tækifæri vildum við ekki standa í vegi fyrir þeim. Við gerðum þó atlögu að titlinum og háðum skemmtilega baráttu. Í fyrra vorum við svo án erlendra stórmeistara og markmiðið breyttist í að ná bronsinu. 

 

Jón Viktor fékk svo í haust spennandi tilboð frá uppeldisfélagi sínu. Hann var samningsbundinn okkur en líkt og með Stefán og Þröst vildum við ekki standa í vegi fyrir Jóni. Hans bíða spennandi verkefni sem vonandi munu efla hann og hvetja til dáða. Við þökkum Jóni Viktori kærlega fyrir mjög ánægjulegt og skemmtilegt samstarf og óskum honum velfarnaðar.

 

Í ár stefnum við á bronsið fyrir liðið, að sem flestir liðsmenn eigi gott mót með passlegum áskorunum og vonandi hrynja inn nokkrir áfangar og stigahækkanir hjá okkar öflugu liðsmönnum !

 

Í bröltinu okkar tefldum þegar best lét fram fjórum sveitum, einni í hverri deild. Við náðum að draga marga góða skákkappa að borðinu, öfluga menn sem þó höfðu margir hverjir nánast hætt að tefla. Þessum sveitum hefur fækkað smá saman og í fyrra voru þær aðeins tvær. Ætlunin var að gera slíkt hið sama í ár en því miður er margt að setja strik í reikninginn. Vinna, veikindi, jarðaför, árshátíð ... lífið sjálft.

 

Forföllin eru af margvíslegum toga. Þrátt fyrir að vera búnir að fá nokkra aðila til að tefla með okkur á helginni, einstaklinga sem lítið hafa teflt undanfarin ár, vantar samt mannskap. Íslandsmót skákfélaga er skemmtileg og virðuleg keppni. Þó gleðin eigi að vera í fyrirrúmi er jafnframt ekkert gefið eftir á skákborðinu. Það er eitt af því sem gerir Íslandsmótið skemmtilegt. Í því samhengi er ekki boðlegt að tefla fram liði sem vitað er að ekki er hægt að fullmanna í öllum umferðum. Við neyðumst því til að draga B lið okkar úr keppni.

 

Ég hef oft sagt að 2. deildin sé sú skemmtilegasta á Íslandsmótinu. Liðin eru oftast mjög jöfn að getu og af 8 liðum falla tvö og tvö fara upp. Á hverju ári endurnýjast deildin um helming. Það er því með mikilli eftirsjá sem við drögum B liðið úr leik.

 

Vonandi veldur þetta ekki miklum óþægindum fyrir önnur félög og keppnina. Við óskum öllum velfarnaðar á helginni og vonandi munu allir skemmta sér vel.

 

F.h. Taflfélags Bolungarvíkur,

Guðmundur M. Daðason

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband