Fjórir sterkir skákmenn ganga til liðs við Taflfélag Bolungarvíkur

TaflBol017

Fjórir sterkir skákmenn hafa ákveðið að ganga til liðs við Taflfélag Bolungarvíkur og styrkja 1.deildarlið þess fyrir deildarkeppnina næstkomandi vetur. Þetta eru Jón Loftur Árnason stórmeistari og alþjóðlegu meistararnir Jón Viktor Gunnarsson, Bragi Þorfinnsson og Dagur Arngrímsson.


Jón L þarf vart að kynna enda hefur hann verið í forystusveit íslenskra skákmanna um áraraðir þó hann hafi minnkað taflmennskuna hin síðari ár. Eftirminnilegasta afrek Jóns L er án efa sigur hans á heimsmeistaramóti sveina 16 ára og yngri árið 1977 þar sem hann varð á undan ekki ómerkari manni en síðar heimsmeistara Garry Kasparov. Jón L var áður í Taflfélaginu Helli.
Alþjóðlegu meistararnir Jón Viktor og Bragi Þorfinnsson eru af þeirri kynslóð sem hefur hin síðari ár verið að taka við keflinu af fjórmenningaklíkunni svokallaðri. Skákmenn af þessari kynslóð stimpluðu sig rækilega inn árið 1995 þegar þeir urðu Ólympíumeistarar sveita yngri en 16 ára. Jón Viktor og Bragi tefldu þar á 1. og 2. borði. Jón Viktor var áður í Taflfélagi Reykjavíkur og Bragi í Taflfélaginu Helli.


Dagur Arngrímsson er einn efnilegasti skákmaður landsins og hefur verið að auka styrkleika sinn jafnt og þétt undanfarin ár. Hann kláraði síðasta skilyrðið fyrir alþjóðlegum meistaratitli í vetur og mun án efa banka á dyr íslenska landsliðsins innan skamms. Dagur var áður í Taflfélagi Reykjavíkur.

Á sama tíma gerir Taflfélag Bolungarvíkur tímamótasamninga við þrjá af þessum öflugu skákmönnum. Jón Viktor og Bragi Þorfinnsson eru styrktir til tveggja ára þannig að þeir geti einbeitt sér algjörlega að taflmennsku og stefnan er að þeir verði báðir orðnir stórmeistarar að þeim tíma liðnum. Dagur Arngrímsson er styrktur til þriggja ára til að auka styrkleika sinn sem skákmanns.


Taflfélag Bolungarvíkur hefur mikla trú á þessum skákmönnum og vill með þessum samningum leggja sitt lóð á vogarskálarnar til þess að efla íslenskt skáklíf.

Á síðasta keppnistímabili vann Taflfélag Bolungarvíkur tvo titla af fjórum mögulegum, sigur vannst í 2. og 4. deild. Á næsta tímabili verður TB með lið í 1.deild og 3.deild og stefnan er sett á að senda tvö lið í fjórðu deild. Öflugt barna- og unglingastarf er hafið í Bolungarvík og standa vonir til að bolvískir unglingar muni tefla í 4.deild ásamt gamalreyndum bolvískum skákmönnum.

 

Myndaalbúm frá undirskriftinni: http://taflfelagbolungarvikur.blog.is/album/fjorir_fraknir/image/505904/

 

Nánari upplýsingar um hina nýju félagsmenn Taflfélags Bolungarvíkur:

 

Jón Loftur Árnason stórmeistari fæddur 13.nóvember 1960.

  • Núverandi skákstig: 2507
  • Heimsmeistari sveina (16 ára og yngri) árið 1977 í Cagnes-sur-Mer í Frakklandi á undan ekki ómerkari manni en Garry Kasparov.
  • Útnefndur stórmeistari árið 1986 Íslandsmeistari 1977, 1982 og 1988.
  • Var í sveit Íslands sem varð í 5.sæti á Ólympíumótinu í Dubai 1986 og 6.sæti í Manila 1992

Jón Viktor Gunnarsson alþjóðlegur meistari fæddur 18.júlí 1980.

  • Núverandi skákstig: 2431
  • Útnefndur alþjóðlegur meistari árið 1998 . Er með einn áfanga að stórmeistaratitli.
  • Íslandsmeistari árið 2000.
  • Tefldi á 1.borði í sveit Íslands 16 ára og yngri sem varð Ólympíumeistari árið 1995.

Bragi Þorfinnsson alþjóðlegur meistari er fæddur 10.apríl 1981.

  • Núverandi skákstig: 2408.
  • Útnefndur alþjóðlegur meistari árið 2003 .
  • Tefldi á 2.borði í sveit Íslands 16 ára og yngri sem varð Ólympíumeistari árið 1995.

Dagur Arngrímsson alþjóðlegur meistari fæddur 14. janúar 1987.

  • Núverandi skákstig: 2392
  • Verður útnefndur alþjóðlegur meistari árið 2008.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband