Annar fulltrúi okkar Vestfirðinga í Landsliðsflokki á Skákþingi Íslands er Ísfirðingurinn Guðmundur Gíslason. Landsliðsflokkurinn er haldinn í betri stofunni í hinni glæsilegu áhorfendastúku Kópavogsvallar. Gummi byrjaði brösulega, því þegar hann stökk úr vinnunni í Hraðfrystihúsi Gunnvarar í Hnífsdal og upp í bílinn sinn þá vildi ekki betur til en að bílinn bilaði eftir skamman akstur. Hann náði þó að redda sér öðrum bíl og náði áfangastað í höfuðborginni um miðja nótt fyrir fyrstu umferðina. Illa sofinn og óundirbúinn fékk hann fína stöðu á móti alþjóðlega meistaranum Birni Þorfinnssyni. Björn er þekktur fyrir að vera bestur þegar staða hans er slæm og náði hann að snúa á okkar mann og landa sigri.
Í næstu umferð mætti Gummi hinum fulltrúa Vestfjarða, stórmeistaranum Henrik Danielsen sem búsettur er á Patreksfirði milli þess sem hann ferðast um heiminn teflandi á alþjóðlegum skákmótum. Henrik kann mjög vel við sig á Patreksfirði þar sem hann á hús. Húsið hefur Henrik innréttað smekklega með mikilli hagsýni, því stórmeistaralaunin eru ekki há. Þetta var því einskonar einvígi um Vestfjarðameistaratitilinn. Reynsla stórmeistarans var sterkari en eldhugur áhugamannsins og Henrik landaði öruggum sigri og var búinn að vinna báðar fyrstu skákirnar sínar á meðan að Gummi hafði tapað báðum sínum.
Með bilaðan bíl og tvö töp á bakinu var ekkert annað fyrir Gumma en að spíta í lófana, horfa út á fótboltavöllinn og sýna sunnanmönnunum í tvo heimana. Tveir vinningar komu í næstu tveim umferðum hjá honum og síðan jafntefli á móti stórmeistarnum Þresti Þórhallssyni. Henrik teflir líka vel og er taplaus og í efsta sætiþegar þetta er skrifað og fimm umferðir af ellefu búnar. Mótið í ár fer vel af stað og sjaldan hefur keppnin verið jafnari. Ellefufaldur Íslandsmeistari Hannes Hlífar Stefánsson hefur t.d. tapað tveim skákum í fyrstu fimm umferðunum.
Aðrir félagar í Taflfélagi Bolungarvíkur sem tefla í Landsliðsflokki eru: Þröstur Þórhallsson, Bragi Þorfinnsson, Stefán Kristjánsson og Dagur Arngrímsson (Henrik teflir reyndar með Vestmannaeyjingum!). Okkar menn raða sér í efstu sætin í byrjun móts.
Staðan í Landsliðsflokki:
Röð | Stig | 1 | 2 | 3 | 4 | 5 | 6 | 7 | 8 | 9 | 10 | 11 | 12 | Vinningar | |||
1 | GM | Danielsen Henrik | 2504 | * | ½ | 1 | ½ | 1 | 1 | 4.0 | |||||||
2 | GM | Thorhallsson Throstur | 2398 | * | ½ | 1 | ½ | 1 | ½ | 3.5 | |||||||
3 | IM | Thorfinnsson Bragi | 2421 | ½ | * | ½ | 1 | ½ | ½ | 3.0 | |||||||
4 | GM | Kristjansson Stefan | 2500 | ½ | 0 | * | 1 | 0 | 1 | 2.5 | |||||||
5 | FM | Bjornsson Sigurbjorn | 2393 | ½ | 0 | * | 1 | 0 | 1 | 2.5 | |||||||
6 | IM | Arngrimsson Dagur | 2361 | ½ | 0 | * | 1 | 0 | 1 | 2.5 | |||||||
7 | GM | Stefansson Hannes | 2531 | 0 | 1 | 0 | * | ½ | 1 | 2.5 | |||||||
8 | Gislason Gudmundur | 2346 | 0 | ½ | * | 1 | 0 | 1 | 2.5 | ||||||||
9 | FM | Kjartansson David | 2305 | ½ | 0 | 1 | ½ | 0 | * | 2.0 | |||||||
10 | IM | Kjartansson Gudmundur | 2357 | ½ | 0 | 1 | 0 | * | ½ | 2.0 | |||||||
11 | IM | Thorfinnsson Bjorn | 2416 | 0 | 0 | 1 | ½ | * | 0 | 1.5 | |||||||
12 | Jensson Einar Hjalti | 2245 | 0 | ½ | 0 | 0 | 1 | * | 1.5 |
Heimasíða mótsins: http://skaksamband.is/?c=webpage&id=546
Daglegar fréttir á skák.is: http://skak.is
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.