17.8.2009 | 18:06
Skákhátíðin í Bolungarvík 1.-13.september
Íslandsmeistararnir í Taflfélagi Bolungarvíkur munu standa fyrir skákhátíð í Bolungarvík 1. 13. september. Eins og sjá má verður mikið um að vera og því má enginn láta hátíðina fram hjá sér fara!
1. - 11. september Skákþing Íslands - landsliðsflokkur
Tólf bestu skákmenn landsins berjast um Íslandsmeistaratitilinn. Allir tefla við alla og er ein skák tefld daglega. Nokkrir liðsmenn Taflfélagsins verða með, þ.á.m. Guðmundur Gíslason.
9. - 11. september Opna Bolungarvíkurmótið
Mótið er opið öllum og verða tefldar 7 umferðir. Verðlaun verða veitt í mismunandi flokkum og Skákmeistari Bolungarvíkur útnefndur. Tefldar verða 7 umferðir, 3 atskákir á miðvikudagskvöldinu, tvær lengri skákir daginn eftir og að lokum aðrar tvær á föstudeginum.
11. september Hraðskákkeppni taflfélaga - úrslitaviðureign
Úrslitaviðureign í Hraðskákkeppni taflfélaga fer fram strax að loknu Skákþingi Íslands og Opna Bolungarvíkurmótinu. Mótið hófst í byrjun ágúst og er teflt með útsláttarfyrirkomulagi. Dregið er fyrir hverja umferð hvaða sveitir tefla saman. Sex keppendur eru í hverri sveit og mun úrslitaviðureignin fara fram föstudagskvöldið 11. september eins og áður sagði.
12. september Hraðskákmót Íslands
Skákhátíð Taflfélags Bolungarvíkur endar á Hraðskákmóti Íslands. Þetta er þriðja árið í röð sem mótið fer fram í Bolungarvík. Mótið er jafnan mjög fjölmennt enda mikið lagt upp úr léttri og skemmtilegri stemmningu. Margs konar verðlaun verða í boði. Keppendur verða því án efa á öllum aldri, af mismunandi styrkleika og frá ýmsum stöðum landsins eins og venjulega!
Sunnudaginn 13. september gefst skákmönnum svo kostur á að taka þátt í golfmóti á vegum Golfklúbbs Bolungarvíkur áður en þeir halda heim á leið.
Nánari upplýsingar veitir Guðmundur Daðason í síma 844-4481 en frekari upplýsingar um tímasetningar og staðsetningu einstakra viðburða verða veittar síðar.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.