20.9.2009 | 21:24
Pistill eftir 1. umferð alþjóðlega mótsins
Það er alltaf ákveðinn léttir þegar 1. umferð klárast. Hvorugur skákstjórinn gat verið í dag og því skiptum ég og Magnús Pálmi vaktinni með okkur. Gunnar Björnsson var með símann á sér ef eitthvað skildi koma uppá. Bjössi náði hádegisflugi frá Vestmannaeyjum og komst því í tæka tíð fyrir kl. 14 með skákskriftarblöðin í annarri hendi og nafnspjöld keppenda í hinni. Seinka varð skákinni hans Ingvars og hófst hún í þann mund sem öllum öðrum skákum lauk. Þetta var því langar dagur fyrir afleysingaskákstjórana! Aðstæður á skákstað eru góðar, vel rúmt um keppendur og flott aðstaða fyrir áhorfendur að sitja og skeggræða um stöðurnar og málefni líðandi stundar.
En þá að skákunum. Stórmeistararnir Miezis og Ivanov komust ekki fyrr en í kvöld og fá því báðir "bye" í 1. umferð, þ.e. þeir fá hálfan vinning án þess að tefla. Þetta er mjög vel þekkt fyrirkomulag á erlendum mótum en hugsanlega í fyrsta skiptið sem þetta er gert á Íslandi! Jón Viktor, Bragi og Dagur unnu svo kallaða skyldusigra, lögðu stigalægri andstæðinga nokkuð örugglega að velli. Alltaf gaman að fylgjast með Degi tefla, sóknin í fyrirrúmi og mikið að gerast á hans skákum. Bjössi vann líka sína skák en samt ekki eins sannfærandi. Staðan var mjög flókin og Jóhann fórnaði hrók og manni fyrir mátsókn. Bjössi var búinn að vera í tímapressu allmarga leiki en náði að koma kóngnum í skjól. Jóhann endaði með að falla á tíma þegar hann fann ekki leið til að halda mátsókninni áfram. Róbert gerði öruggt jafntefli með svart en Þröstur náði aðeins jafntefli með hvítu. Andstæðingur Þrastar sagðist ekki hafa teflt á svona móti í 12 ár og var bara sáttur með skákina. Soren var reyndar manni yfir en Þröstur sótti stíft og endaði skákin á þrátefli.
Menn dagsins voru Stefán Bergsson og Ingvar Þór. Stefán virtist ekki fá góða stöðu úr ítalska leiknum en hann tefldi miðtaflið vel. Hann saumaði jafnt og þétt að Silas Lund og í endataflinu hafði Stefán drottningu og 2 peð á móti hróki og 3 peðum. Staðan var hins vegar þannig að Silas gat stillt upp miklum varnarmúr og þurfti ýmsar tilfæringar til að brjóta hann á bak aftur. Ég og Rúnar Berg gátum ekki betur séð en að Stefán hefði átt að svíða stöðuna hægt og koma Silasi í leikþröng. Stefán lék hins vegar af sér peði og eftir það var staðan steindautt jafntefli. Ingvar byrjaði daginn á að gera jafntefli við Lenku í Haustmóti TR. Úr TR skákhöllinni þaut Ingvar upp í Bridgesamband og settist að tafli við Daniel Semcesen, sem hafði fallist á að byrja skákina kl. 17. Þegar Ingvar kom hafði hann þegar tapað talsverðum tíma. Hann tefldi hins vegar fína skák og þrátt fyrir að tefla marga leiki undir lokin í mikilli tímapressu náði hann að bæta stöðuna jafnt og þétt. Daniel gafst upp þegar hrókur var að falla í valinn og var það svo ein erfiðasta bílferð sem ég hef farið, þegar ég skipuleggjandinn sem talaði Daniel inná að seinka skákinni, keyrði hann heim. En Daniel var nú samt aðallega ósáttur við sína eigin taflmennsku.
2. umferð hefst kl. 11 í Bridgesambandinu Síðumúla 37. Tvær Íslendingaviðureignir vekja strax sérstakan áhuga minn, Björn - Jón Viktor og Dagur - Bragi. Allir fjórir ætla sér að næla í áfanga að stórmeistaratitli og verða því að gjöra svo vel og vinna! Dagur vann Braga með hvítu í Landsliðsflokknum og rauk Bragi á dyr eftir þá skák. Er stund hefndarinnar runnin upp?
Úrslit 1. umferðar og pörun 2. eru hér að neðan. Skákirnar eru ekki sýndar beint þannig að það er um að gera að mæta og fylgjast með.
Skákkveðja, Gummi formaður og afleysingaskákstjóri þegar mikið liggur við.
Útgáfufélagið Sögur er styrktaraðili mótsins.
Pörun 2. umferðar:
Name | Res. | Name |
Bjorn Thorfinnsson | - | Jon Viktor Gunnarsson |
Dagur Arngrimsson | - | Bragi Thorfinnsson |
Normunds Miezis | - | Ingvar Thor Johannesson |
Silas Lund | - | Jakob Vang Glud |
Mikhail M Ivanov | - | Stefan Bergsson |
Robert Lagerman | - | Throstur Thorhallsson |
Soren Bech Hansen | - | Daniel Semcesen |
Nikolai Skousen | - | Johann Ingvason |
Jorge Rodriguez Fonseca | - | Halldor Einarsson |
Úrslit 1. umferðar:
Name | Res. | Name |
Skotta I | ½ - ½ | Normunds Miezis |
Jakob Vang Glud | ½ - ½ | Robert Lagerman |
Ingvar Thor Johannesson | 1 - 0 | Daniel Semcesen |
Jon Viktor Gunnarsson | 1 - 0 | Nikolai Skousen |
Skotta II | ½ - ½ | Mikhail M Ivanov |
Throstur Thorhallsson | ½ - ½ | Soren Bech Hansen |
Halldor Einarsson | 0 - 1 | Dagur Arngrimsson |
Bjorn Thorfinnsson | 1 - 0 | Johann Ingvason |
Stefan Bergsson | ½ - ½ | Silas Lund |
Bragi Thorfinnsson | 1 - 0 | Jorge Rodriguez Fonseca |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.