Jón Viktor og Ingvar í möguleikum

Bæði Jón Viktor og Ingvar gerðu jafntefli í sínum skákum í fyrri umferð dagsins. Þeir eiga því enn möguleika á áföngum en það mun ekki ganga hjá þeim að gera bara jafntefli það sem eftir er! Þeir þurfa að halda á og pressa til sigurs. Í næstu umferð hafa þeir báðir svart, Jón Viktor gegn Silasi Lund og Ingvar á móti Birni Þorfinns.

Bragi fékk betri stöðu úr byrjuninni á móti Miezis en síðan fór hann að tefla aðeins of rólega. Kannski var það að trufla hann að vilja ekki taka of mikla áhættu því hann vildi hafa jafnteflið í bakhöndinni. Miezis náði að snúa skákinni sér í vil og þegar tíminn fór að minnka mikið fjaraði endanlega undan stöðunni hans Braga. Eftir skákina sagði Miezis að hann hefði verið ósáttur við stöðuna sem hann fékk eftir byrjunina og að Bragi hefði klárlega átt að geta nýtt sér hana betur. Miezis sagðist líka vera feginn að hafa ekki lent í svona stöðu á móti Bjössa, sköpunargáfa Bjössa hefði klárað skákina! Kannski er bara málið að sameina bræðurna í einn ósigrandi skákmann, Mr. B Thorfinnsson Smile

Þetta tap hjá Braga gerir því miður út um hans möguleika á áfanga. Dagur átti líka stjarnfræðilega möguleika á áfanga og eins og venjulega setti hann flugeldasýningu í gang. Fyrst fórnaði hann manni og síðan drottningunni. Mátið stóð hins vegar á sér og Dagur varð að lokum að játa sig sigraðan. Skemmtileg skák samt sem áður. Glud á þá reyndar ennþá stjarnfræðilega möguleika á áfanganum. Til þess þarf hann að vinna síðustu 3 skákirnar.

Og þá er 7. umferðin að byrja og nú er um að gera að bruna í Síðumúla 37 og styðja strákana í áfangaveiðinum. Svo er tilvalið að koma við í Skákhöllinni á leiðinni heim og kíkja á 2. umferð í Haustmóti TR.

Skákkveðjur, Gummi

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband