23.11.2008 | 23:43
Dagur Arngrímsson Taflfélagi Bolungarvíkur með stórmeistaraáfanga
Dagur Arngrímsson (2392) Taflfélagi Bolungarvíkur gerði jafntefli við kúbverska alþjóðlega meistarann Fidel Corrales Jimenez (2552) í níundu og síðustu umferð alþjóðlegs móts í Harkany í Ungverjalandi. Með því tryggði Dagur sér sinn fyrsta áfanga að stórmeistaratitli!
Árangur Dags svarar til 2628 stiga og hækkar hann um 27 stig fyrir frammistöðuna. Jón Viktor Gunnarsson og Bragi Þorfinnsson félagar í Taflfélagi Bolungarvíkur tóku einnig þátt í mótinu ásamt Guðmundi Kjartanssyni úr Taflfélagi Reykjavíkur. Jón Viktor og Bragi stóðu sig þokkalega og Guðmundur Kjartansson náði áfanga að alþjóðlegum meistaratitli.
Þetta er þriðja mótið í þessari ferð sem þeir félagar taka þátt í með styrk frá Taflfélagi Bolungarvíkur. Fyrsta mótið var Evrópumót Taflfélaga í Grikklandi 17.-23.október. Þar náði Guðmundur Gíslason frá Ísafirði áfanga að alþjóðlegum áfanga og sveit Taflfélags Bolungarvíkur í 36.sæti af 64 sveitum. Annað mótið var First Saturday í Búdapest í Ungverjalandi 1.-12.nóvember. Í því móti lenti Jón Viktor í sjötta sæti og hækkaði þó nokkuð að stigum. Mótið sem var að klárast í gær fór fram dagana 14.-22.nóvember. Þetta er því búin að vera þétt törn hjá félagsmönnum í Taflfélagi Bolungarvíkur og skilað góðum árangri.
Dagur og Jón Viktor halda nú til Belgrad í Serbíu þar sem þeir tefla á alþjóðlegu skákmóti ásamt Guðmundi Kjartanssyni og Snorra G. Bergssyni úr Taflfélagi Reykjavíkur.
Flokkur: Fjórir fræknir | Breytt s.d. kl. 23:52 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.