Fullkomin helgi

Það er óhætt að segja að allt hafi gengið upp hjá okkur Íslandsmeisturunum á síðustu helgi í Íslandsmóti skákfélaga. A liðið með örygga forystu, B liðið ekki í fallsæti og C liðið á góðu róli. Stefán Kristjánsson innsiglaði svo helgina með stórmeistaratitli.

TR, TV og Hellir höfðu öll styrkt sínar sveitir fyrir lok félagsskiptagluggans og því áttum við von á mikilli baráttu um Íslandsmeistaratitilinn í ár. Að vísu grunaði okkur að TR myndi ekki mæta með öll stóru nöfnin til leiks þó við byggjumst við þeim mun sterkari. Erfitt var að segja hvort Hellir myndi endurtaka leikinn frá í fyrra en öflugur kjarni Íslendinga mun ávallt gera þá að sterkum andstæðingi. TV héldum við að myndu fara "all in" eftir að hafa styrkt sig mikið með því að fá Henrik Danielsen. Vestmannaeyingar komu okkur því mest á óvart með sinni uppstillingu. Mér fannst hins vegar mjög skemmtilegt að sjá Helga og Henrik tefla hlið við hlið, afar ánægjulegt þegar mönnum tekst að slíðra sverðin og flott fyrir íslenskt skáklíf!

A liðið lagði upp með að tefla til sigurs í hverri skák, ekkert skyldi gefið eftir. Enda fór það svo að fjórir stórsigrar unnust, ekki ein einasta skák tapaðist, aðeins 9 jafntefli leyfð og forystan 8,5 vinningar. Óhætt er að segja að breiddin hafi skilað sér því neðstu fimm borðin fengu samtals 19 vinninga af 20. Algerlega mögnuð frammistaða.

B liðið háði frumraun sína í 1. deildinni og í fyrstu viðureigninni var liðið eingöngu sett saman af rótgrónum vestfirskum kjarna: Gummi Gísla, Halldór Grétar, Gummi Halldórs, Magnús Pálmi og svo bræðrasettin og frændurnir Stebbi Arnalds, Gummi Daða, Unnsteinn og Maggi Sig. Viðureignin tapaðist að vísu 8-0 fyrir A liðinu og vorum við ekki alveg sáttir að ná ekki svo mikið sem hálfum punkti. En B liðið mætti tvíeflt til leiks daginn eftir og lagði bæði Akureyringa og Fjölni að velli. Mjög mikilvægir sigrar í fallbaráttunni. Á sunnudeginum gerði sveitin svo 4-4 jafntefli við Helli sem voru líklega ein bestu úrslit einstaks liðs á helginni. Hellir var 150-200 stigum hærri á hverju einasta borði og því ljóst að frábær barátta skilaði frábærum úrslitum.

C liðið okkar virðist dæmt til að vera í nokkurs konar miðjumoði í 3. deildinni. Sveitin er ekki nógu öflug fyrir toppbaráttuna en ætti þó að vera of sterk til að falla. Mönnun liðsins getur þó valdið talsverðum sveiflum á gengi þess. Markmiðið okkar var fyrst og fremst að ná tveim sigrum og forðast þar með að sogast niður í botnbaráttuna. Það tókst og er liðið nú í 8. sæti af 16. Einn sigur í viðbót ætti að tryggja öruggt sæti í 3. deildinni.

Margs konar skemmtileg tilþrif sáust á helginni og er óhætt að segja að liðsmenn hafi skemmt sér vel á milli skáka við að stúdera og ræða skemmtileg tilþrif. Leik helgarinnar átti að mínu mati Bragi Þorfinnsson. Að vísu var leikurinn augljós en framkvæmd hans var mikið sjónarspil. Héðinn Steingrímsson hafði teygt sig of langt til sigurs á móti honum og var skyndilega óverjandi mát í tveimur leikjum. Bragi átti um eina og hálfa mínútu eftir á klukkunni en tók sinn tíma. Hann rétti vel úr sér og leit vandlega yfir allt skákborðið. Nokkrar sekúndur eftir, fullur salur af fólki. Síðan greip hann um hrókinn, tók léttan snúning með úlnliðinum og lagði hrókinn svo niður á næsta reit við hliðina. Að lokum þrýsti hann fingrinum ofurlétt á skákklukkuna og mjakaði takkanum hægt niður. Svona eiga menn að njóta augnabliksins.
Skák helgarinnar átti Halldór Grétar á móti Gylfa Þórhalls frá Akureyri. Ég held að það sé best að lýsa skákinni ekki frekar hér heldur skora bara á Halldór að birta skákina með skýringum.
Maður helgarinnar var þó klárlega Stefán Kristjánsson. Langþráðu takmarki var náð með því að hækka upp í 2500 stig og verður hann formlega útnefndur stórmeistari á næstu mánuðum. Síðasta atlaga hans byrjaði reyndar í lok september á Evrópumóti taflfélaga þar sem hann fór fyrir sveit okkar Bolvíkinga sem náði stórkostlegum árangri á mótinu, 14. sæti. Fjórir sigrar í fjórum skákum nú tryggði svo stórmeistaratitilinn og er hann virkilega vel að þessu kominn. Til hamingju Stefán!

Að lokum vil ég sérstaklega þakka öllum liðsmönnum Íslandsmeistara Taflfélags Bolungarvíkur. Liðsandinn er einstakur og menn duglegir að klappa hverjum öðrum á bakið, bæði þegar vel gengur og illa. Það var fyrst og fremst liðsheildin sem skóp þennan árangur og gerði helgina fullkomna.

Guðmundur M Daðason, formaður TB.

Árangur einstakra liðsmanna:
Loek van Wely 1,5 af 3
Yuriy Kuzubov 3,5 af 4
Vladimir Baklan 2,5 af 4
Stelios Halkias 3,5 af 4
Jóhann Hjartarson 3 af 3
Jón L Árnason 3 af 3
Stefán Kristjánsson 4 af 4
Jón Viktor Gunnarsson 3 af 3
Bragi Þorfinnsson 3 af 4
Þröstur Þórhallsson 3 af 4
Dagur Arngrímsson 3 af 4
Guðmundur Gíslason 2,5 af 4
Halldór G Einarsson 2,5 af 4
Guðmundur Halldórsson 0 af 2
Magnús P Örnólfsson 2 af 4
Árni Ármann Árnason 0,5 af 1
Stefán Arnalds 1 af 4
Guðmundur Daðason 2 af 4
Unnsteinn Sigurjónsson 2,5 af 4
Magnús Sigurjónsson 1,5 af 4
Daði Guðmundsson 0,5 af 2
Gísli Gunnlaugsson 3 af 4
Víkingur Fjalar Eiríksson 1 af 3
Jónas H Jónsson 1 af 3
Benedikt Einarsson 0,5 af 1
Hálfdán Daðason 1 af 1
Kristján Heiðar Pálsson 0,5 af 3


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband