30.1.2011 | 15:54
Skákþing Vestfjarða 1965
Ásgeir Överby sendi mér tvær gamlar A6 bækur sem innihéldu fjölrit af öllum skákum á fyrstu tveim Skákþingum Vestfjarða árin 1959-60 og 1965. Bækurnar voru gefnar út af Taflfélagi Ísafjarðar og hefur verið mikil vinna á sínum tíma. Textinn í bókunum var farinn að mást og hafði Ásgeir samband við mig á Facebook og sendi mér bækurnar í framhaldinu. Ég sló skákirnar inn í ChessBase og setti þær síðan inn í pdf skjal. Meðfylgjandi er pdf skráin og síðan einnig pgn-skrá með öllum skákunum.
Bolvísk skáksaga | Breytt 8.11.2012 kl. 13:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.1.2011 | 15:45
Stofnun Skáksambands Vestfjarða 1976
Meðfylgjandi pdf skjal er lýsing úr gamalli ársskýrslu Skáksambandsins um stofnun Skáksambands Vestfjarða árið 1976.
Bolvísk skáksaga | Breytt 8.11.2012 kl. 13:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.1.2011 | 14:59
Skákþing Vestfjarða 1993
Grein sem birtist í Tímaritinu skák á sínum tíma. Sennilega sterkasta Vestfjarðamót frá upphafi. Gummi Gísla vann það örugglega. Arinbjörn og Gummi Halldórs urðu jafnir í öðru sæti varð. Myndina að ofan fékk ég frá Ásgeiri Överby. Greinin fylgir á pdf formi hérna fyrir neðan. Einnig pgn-skrá með skákunum.
Bolvísk skáksaga | Breytt 8.11.2012 kl. 13:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.1.2011 | 11:42
Eitt lítið peð
Bolvísk skáksaga | Breytt 8.11.2012 kl. 13:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.1.2011 | 00:23
Opna Gíbraltarmótið
Opna Gíbraltarmótið fer fram dagana 24.janúar til 3.febrúar næstkomandi. Þetta er eitt flottasta opna skákmót ársins með góðum aðstæðum og háum verðlaunum. Félagar okkar þeir Þröstur Þórhallsson og Stefán Kristjánsson hyggjast taka þátt í mótinu og tilvalið fyrir menn, sem hafa tækifæri á, að skella sér með þeim. Eins og fyrr segir þá eru aðstæður mjög góðar í mótinu og reikna má með að hitastig á þessum tíma á Gíbraltar sé 15-17 gráður. Golfvellir í nágrenninu og tilvalið að sameina smá vetrarfrí og skák. Mörg þekkt nöfn eru á þátttakendalistanum m.a. Vassily Ivanchuk og hin nýkrýndi heimsmeistari kvenna Hou Yifan. Mótið er opið öllum og verðlaun í hinum ýmsu stigaþrepum.
Sjá nánar á heimasíðu mótsins: http://www.gibraltarchesscongress.com/gib2011/index.html
Einnig getur Þröstur gefið ykkur góð ráð: throstur@austurbaer.is
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.12.2010 | 22:45
Nýr stórmeistari hjá Taflfélagi Bolungarvíkur
Í dag varð Illya Nyzhnyk stórmeistari í skák eftir að hann gerði jafntefli við indverska stórmeistarann Abhijeet Gupta á alþjóðlega mótinu í Groningen í Hollandi. Nyznyk er því yngsti stórmeistari heims í dag. Nyznyk gekk í raðir okkar í sumar og óskar Taflfélag Bolungarvíkur honum til hamingju með árangurinn !
Um miðjan desember náði annar félagsmaður okkar frábærum árangri. En þá varð Englendingurinn Luke McShane í 2.-3. sæti ásamt indverska heimsmeistaranum Viswanathan Anand í London Chess Classic mótinu. Magnúsi Carlsen stigahæsti skákmaður heims vann móti, en okkar maður vann Carlsen í flottir skák í fyrstu umferð. Ummæli Helga Ólafssonar um þá skák: "Það voru sönn snilldartilþrif sem sáust til Íslandsvinarins Luke McShane í sigurskákinni við Magnús Carlsen. Er ég ekki frá því hér sé á ferðinni ein besta skák ársins."
Sjá skákina á: http://skak.blog.is/blog/skak/entry/1127074/
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.12.2010 | 22:44
Þröstur Þórhalls og Jón Viktor í ham
Þröstur Þórhallsson gerði góða ferð til London um miðjan desember og krækti sér í 3.-7. sætið í FIDE Open flokknum í London Chess Classic hátíðinni. Þetta er besti árangur Þrastar í langan tíma og kærkominn eftir langan öldudal. Þröstur vann m.a. indverska stórmeistarann Abhijeep Gupta glæsilega í lokaumferðinni.
Jón Viktor og Þröstur urðu síðan jafnir og efstir á Friðriks-mótinu, sem jafnframt var Hraðskákmót Íslands, rétt fyrir jólin. Jón Viktor var hærri að Monrda stigum og varð því Hraðskákmeistari Íslands 2010. Reyndar urðu félagsmenn TB í fjórum efstu sætunum.
1. Jón Viktor Gunnarsson TB 9
2. Þröstur Þórhallsson TB 9
3. Jóhann Hjartarsson TB 8
4. Jón L Árnason TB 8
5. Helgi Ólafsson TV 8
6. Omar Salama Helli 8
7. Bergsteinn Einarsson TR 8
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.10.2010 | 10:01
Íslandsmót skákfélaga
Fyrri hluti Íslandsmóts skákfélaga fór fram 8.-10. október. Keppnin fór fram í Rimaskóla með hefðbundnu sniði og má gera ráð fyrir að um 400 skákmenn hafi mætt til leiks. Við Íslandsmeistararnir í Bolungarvík ætlum okkur að sjálfsögðu að verja titilinn og verða Íslandsmeistarar þriðja árið í röð. Keppnin í ár mun þó verða harðari en nokkru sinni fyrr eins og kom berlega í ljós í fyrri hlutanum. B lið félagsins teflir í annarri deild og fyrirfram bjuggumst við við að vera í baráttu við Máta, Helli b og TR b um að fara upp í 1. deild. Í þriðju deild er C liðið okkar og þar sem þónokkuð var um forföll áttum við alveg eins von á að geta lent í fallbaráttu. Undanfarin ár höfum við einnig haft D lið í fjórðu deildinni en vegna forfallanna neyddumst við til að draga liðið úr keppni þennan vetur. Ljóst er að við þurfum að fjölga félögum til að geta sent það aftur til leiks á næstu árum.
Helsti styrktaraðili Íslandsmeistaranna þessa helgi var Nói Siríus. Fyrir hverja umferð var súkkulaðiplötum dreift við borð allra liðsmanna okkar og vakti það óskipta athygli og jafnvel öfund á köflum. Kunnum við Nóa Siríus bestu þakkir fyrir stuðninginn. En þá að taflmennskunni.
Fyrsta umferð
A liðið byrjaði á að mæta sterku liði Fjölnis sem hafði fjóra erlenda skákmenn auk Héðins Steingrímssonar. Við vorum með tvo Úkraínumenn þessa helgi á efstu borðunum, Kryvoruchko og Kuzubov. Aðrir í sveitinni á móti Fjölni voru Jóhann Hjartarson, Stefán Kristjánsson, Bragi Þorfinssson, Jón Viktor Gunnarsson, Þröstur Þórhallsson og Guðmundur Gíslason. Okkar menn fóru vel af stað og unnu sannfærandi 6,5-1,5. Af öðrum ólöstuðum tefldi Jóhann alveg magnaða skák. Segja má að hann hafi byrjað á að koma andstæðingnum í hálfgerða leikþröng. Síðan lét hann andstæðinginn veikja peðastöðuna með flottum drottningar og biskups leikjum (Dh1 og Bg2). Eftir það sótti kóngurinn fram og hirti peðin eitt af öðru. Hrein unun að sjá hvernig Jóhann bætti stöðuna sína skref fyrir skref og ungir skákmenn ættu sérstaklega að skoða þessa skák og læra af. Jóhann sýndi þarna af hverju hann er sterkasti skákmaður sem Ísland hefur átt!
B liðið mætti Haukum b og vorum við stigahærri á öllum borðum. Sveitina okkur skipuðu Dagur Arngrímsson, Halldór Grétar Einarsson, Magnús Pálmi Örnólfsson, Stefán Arnalds, Guðmundur Daðason og Sæbjörn Guðfinnsson. Segja má að við höfum teflt óaðfinnanlega enda unnum við 6-0 og vorum aldrei í taphættu á neinu borði.
C liðið átti á brattann að sækja í fyrstu umferð á móti stigahærra liðið TR c. Magnús Sigurjónsson var á fyrsta borði og með honum tefldu Gísli Gunnlaugsson, Sigurður Hafberg, Jónas H Jónsson, Jón Eðvald Guðfinnsson og Páll Sólmundur Eydal. Við byrjuðum reyndar vel og Jónas vann snaggarlegan sigur en svo hallaði verulega undir fæti. Niðurstaðan varð 4,5-1,5 tap.
Önnur umferð
Jóhann og Stefán hvíldu hjá A liðinu en Jón L Árnason og Dagur komu í liðið í staðinn. Við mættum KR ingum og unnum ótrúlegan 8-0 sigur. Dramatíkin var þó mikil því síðasta skák viðureignarinnar var á öðru borði, Kuzubov á móti Sören Bech Hansen. Okkar maður var búinn að veramjög tímanaumur í talsvert marga leiki og staðan hans var viðkvæm. Smám saman saxaðist líka í tíma Hansen en staða hans fór batnandi og var nánast orðin unnin. Á einu augabragði snérist hins vegar taflið þegar Hansen skákaði með hrók, saklaus leikur að því er virtist, og skyndilega hrundi staða hans til grunna. Svipbrögð Hansen og viðbrögð þegar hann uppgötvaði smám saman hvað hafði gerst, hvað hann hafði gert, eru ólýsanleg. Það hefði þurft að vera myndavél á staðnum. Fyrst rak hann upp stór augu, svo var hausinn hristur, aðeins bölvað, slegið á enni sér, bölvað meira, hárið reytt. Að lokum gefið. Sorgleg fyrir Hansen og KR og alls ekki sanngjarnt en að því er ekki spurt.
Í annarri deild tefldum við á móti Reykjanesbæ. Árni Ármann Árnason og Unnsteinn Sigurjónsson komu inn í liðið í stað Dags og Sæbjörns, sem færðust í A og C liðið. Andstæðingur minn mætti ekki og því fengum við strax einn vinning gefins. Í öðrum viðureignum tefldum við vel og unnum samtals 4-2. Sigurinn hefði þó getað orðið stærri því Árni tefldi svo djarft til vinnings að hann endaði á að tapa og Stefán hefði hugsanlega getað fengið meira en jafntefli úr sinni skák.
Í þriðju deild mættum við C liði Akureyrar og markmiðið var sett á sigur. Sæbjörn, Þormar Jónsson og Benedikt Einarsson komu inn í liðið í stað Jónasar, Jóns Eðvalds og Páls Sólmundar. Fyrirkomulagið í 3. og 4. deild er þannig að vinningar skipta ekki meginmáli heldur fást 2 stig fyrir að vinna viðureign og 1 fyrir 3-3 jafntefli. Annars ekkert stig! Það má því lítið útaf bregða. Það stefndi í 3-3 eða jafnvel tap þegar heilladísirnar snérust með okkur. Sigurður Hafberg náði með mikilli seiglu að bjarga sinni skák í jafntefli og sama má segja um Þormar. Á 6. borði var Halldór Blöndal með gjörunna stöðu á móti Benedikt, manni yfir og með mátsókn. Auk þess átti Halldór um klukkutíma eftir en Benedikt nokkrar mínútur. Þegar Benedikt var að því kominn að gefa skákina lék Halldór af sér drottningunni. Við það fipaðist Halldór algerlega og í staðinn fyrir að beina skákinni út í mun verra endatafl, sem þó hefði mátt berjast áfram í, hélt hann áfram að leika af sér og gaf stuttu síðar. Heiðursmaðurinn Benedikt baðst afsökunar á þessum sigri sínum, skiljanlega fyrir okkur sem urðum vitni að þessu. Niðurstaðan var 4,5-1,5 sigur sem var auðvitað allt of stór miðað við útlitið á tímabili.
Þriðja umferð
Nú var komið að erfiðustu viðureign Íslandmeistaranna þessa helgi, á móti Helli. Hannes Hlífar tefldi aðeins á 4. borði en fyrir ofan hann voru þrír mjög stigaháir erlendir skákmenn, m.a. David Navara sem hefur 2722 stig. Jóhann og Stefán komu aftur í liðið og má segja að allt hafi verið lagt undir. Baráttan var hörð en þegar líða tók á viðureignina varð útlitið sífellt dekkra. Stöðurnar á borðunum gáfu ekki fyrirheit um góð úrslit. Segja má að skák Hannesar og Jóns L hafi skipt sköpum. Hannes hafði yfirburðastöðu, ef ekki kolunnið, þegar hann lék hræðilegum afleik. Jón nýtti sér mistökin um leið og Hannes gat ekkert gert nema gefið. Niðurstaðan varð 4,5-3,5 tap en við hefðum aðeins fengið 2,5 vinning ef Jón hefði tapað. Við vorum því sáttir þrátt fyrir tap með minnsta mun enda Hellir stigahærra liðið í þessari viðureign og útlitið verulega dökkt um tíma.
B liðið mætti b liði Hellis á sama tíma. Guðmundur Gísla og Dagur færðust niður í B liðið í stað Árna og Unnsteins. Þeir reyndust hinn sæmilegast liðsstyrkur því þeir unnu báðir sínar skákir. Ég tefldi illa og tapaði en Stefán Arnalds og Halldór Grétar gerðu jafntefli. Staðan var því 3-2 þegar aðeins ein skák var eftir, á milli Gunnars Björnssonar forseta SÍ og Magnúsar Pálma stjórnarmanns SÍ. Gunnar sveið Magnús illa í endataflinu og tryggði Helli því jafntefli í viðureigninni. Keppnismaðurinn Magnús var auðvitað ekki sáttur við þessi úrslit og bannaði algerlega að þessi úrslit yrðu rifjuð upp. Af tillitssemi við Magnús verður því ekki minnst á þessa skák hér og af tillitssemi við aðra félagsmenn okkar verða ekki rifjaðar upp fyrri viðureignir okkar við forsetann.
Til að fullkomna daginn þá mættust C lið okkar og Hellis auðvitað í þriðju deildinni. Þetta var því sannkölluð TB Hellis umferð. Unnsteinn færðist úr B liðinu í C liðið og Halldór Gíslason tefldi líka en Sæbjörn og Benedikt sátu hjá. Viðureignin var ansi jöfn og staðan 2,5-2,5 þegar ein skák var eftir. Þar tefldi Þormar Jónsson við Ólympíufarann Jóhönnu Björg. Þormar stóð til vinnings og allt útlit fyrir 2 stig í hús. Slæmur afleikur breytti hins vegar stöðunni og nú var jafntefli í spilunum. Því miður fyrir Þormar lék hann aftur af sér og skákin tapaðist, tvö stig út um gluggann þar. Jóhanna gerði þó vel í að nýta sér mistök Þormars sem tefldi vel alla helgina þó úrslitin hafi ekki alltaf verið í samræmi við það. Ljóst er þó að Þormar er mjög góð viðbót við liðið og fögnum við komu hans.
Fjórða umferð
Á sunnudagsmorgninum mætti A liðið Akureyringum, sem komnir eru aftur í 1. deildina. Þar eiga auðvitað vinir mínir að norðan heima! Jóhann og Bragi hvíldu og komu Guðmundur Gísla og Dagur því inn í liðið á ný. Við vorum með mun stigahærra lið og því var stefnt á stórsigur. Það gekk ekki eftir og unnum við aðeins 5,5-2,5. Við hefðum sætt okkur við einum vinningi meira og voru þetta því klárlega vonbrigði.
B liðið mætti Selfyssingum og var liðsskipan okkar ansi athyglisverð fyrir margra hluta sakir. Albræðurnir Unnsteinn og Magnús Sigurjónssynir voru hlið við hlið á 5. og 6. borði. Hálfbræðurnir Stefán Arnalds og Guðmundur Daðason voru einnig hlið við hlið á 3. og 4. borði. Hlið við hlið á 1. og 2. borði sátu svo Halldór Grétar og Magnús Pálmi, fulltrúar okkar í stjórn SÍ. Allir sex teljumst við vera innfæddir Bolvíkingar og eru líklega nokkur ár síðan að sveit frá okkur hafi verið þannig skipuð. Því miður tókum við ekki mynd af liðinu en við stillum okkur kannski upp síðar! Liðsskipanin hlýtur að hafa sett Selfyssinga út af laginu, eða eflt okkur gríðarlega, því við unnum sannfærandi sigur 5,5-0,5. Frábær endir á góðri helgi B liðsins.
C liðið endaði á að mæta Skákfélaginu Vinjar og voru Jónas, Benedikt og Hálfdán Daðason nú komnir í liðið. Ekki er hægt að kvarta yfir þeirra innkomu því samtals tryggðu þeir liðinu tvo vinninga og lögðu þannig grunn að 3,5-2,5 sigri okkar. Það verður samt eiginlega að geta þess, Vinjarmönnum til varnar, að það vantaði þrjá sterka skákmenn í þeirra lið. Tvö mikilvæg stig í hús og mjög gott að enda helgina á sigri.
Staðan
Keppnin um Íslandsmeistaratitilinn hefur aldrei verið jafnari. TV eru efstir með 25 vinninga, við erum í öðru sæti með 23,5 og Hellir þriðju með 22. Vestmannaeyingar eiga hins vegar erfiðustu dagskrána eftir, m.a. bæði okkur og Helli, á meðan Hellir á léttustu dagskrána eftir. Hellir hefur auk þess forskot á okkur þar sem þeir unnu innbyrðis viðureignina. Ég tel reyndar að Hellir sé í lykilstöðu til að vinna mótið. Þeir geta enn bætt við sig einum mjög öflugum erlendum stórmeistara og ættu að hafa alla burði til að vinna tvær viðureignir 8-0 ásamt því að vera sigurstranglegir þegar þeir mæta TV. Vestmannaeyingar eru klárlega að leggja allt undir þetta árið og hljóta að mæta til leiks með enn sterkari erlenda stórmeistara í seinni hlutann. Þeir munu því ekkert gefa eftir. Við ætlum okkur auðvitað að berjast áfram og reyna að verja Íslandsmeistaratitilinn og í mínum huga er ljóst að dagsformið mun á endanum ráða úrslitum. Í skák er stundum sagt að sá sem leikur næst síðast af sér vinnur. Það á vel við þessa baráttu því héðan í frá munu minnstu mistök kosta Íslandsmeistaratitilinn.
B liðið kom á óvart í annarri deild og er í öðru sæti með 18,5 vinninga. Efstir eru Mátar með 20 vinninga en TR b hefur 15 vinninga og Hellir b 14. Liðin eiga miserfiða andstæðinga eftir og því stefnir í mikla baráttu um tvö efstu sætin. Þessi árangur kom okkur á óvart því hvorki Elvar Guðmundsson né Guðmundur Halldórsson gátu teflt þessa helgi, auk þess sem Árni Ármann gat bara teflt eina skák. Liðið gæti því orðið enn sterkara í seinni hlutanum og ef taflmennskan heldur áfram að vera svona góð munum við eiga tvö lið í efstu deild að ári!
Vegna margs konar forfalla áttum við von á að C liðið yrði nálægt botnbaráttu þriðju deildar. Það var því ánægjulegt að ná 4 stigum í hús og siglir liðið nokkuð lygnan sjó sem stendur um miðja deild. Það er óraunhæft að liðið blandi sér í toppslaginn og er markmið áfram að halda okkur eins fjarri botnbaráttunni og mögulegt er. Ánægjulegt var að sjá nokkur ný andlit tefla með liðinu og greinilegt að fengur er að Jónasi, Þormari og Halldóri Gíslasyni sem allir hafa frekar nýlega gengið til liðs við félagið. Húmoristinn Sigurður Hafberg kom frá Flateyri til að tefla og mun vonandi halda því áfram næstu árin.
Að lokum
Um leið og ég þakka Braga Kristjánssyni og Ólafi Ásgrímssyni fyrir skákstjórn, Helga Árna og Rimaskóla fyrir umgjörðina og Ásdísi, Skáksambandinu og ýmsum fleirum fyrir alla vinnuna og utanumhaldið, vil ég þakka einum liðsmanni okkar sérstaklega. Gísli Gunnlaugsson hefur í mörg ár hvorki látið veikindi né stórafmæli aftra sér frá því að tefla fyrir okkar hönd. Ef það hefur vantað menn hefur hann ýmist útvegað son sinn eða vini til að bjarga okkur. Ef það þarf að skutlast þá er hann ávallt reiðubúinn, hvort sem er til Akureyrar eða út á Leifsstöð. Gísli er hreint út sagt fyrirmyndar liðsmaður og félagi. Takk fyrir allt Gísli!
Guðmundur Daðason, formaður TB
Árangur einstakra liðsmanna Íslandsmeistaranna:
Yuriy Kryvoruchko 3 af 4
Yuriy Kuzubov 2,5 af 4
Jóhann Hjartarson 1 af 2
Jón L Árnason 3 af 3
Stefán Kristjánsson 2,5 af 3
Bragi Þorfinnsson 1 af 3
Jón Viktor Gunnarsson 2,5 af 4
Þröstur Þórhallsson 3,5 af 4
Guðmundur Gíslason 4 af 4
Dagur Arngrímsson 3,5 af 4
Halldór Grétar Einarsson 2,5 af 4
Magnús Pálmi Örnólfsson 3 af 4
Árni Ármann Árnason 0 af 1
Stefán Arnalds 3 af 4
Guðmundur Daðason 3 af 4
Unnsteinn Sigurjónsson 3 af 3
Sæbjörn Guðfinnsson 2 af 2
Magnús Sigurjónsson 2 af 4
Gísli Gunnlaugsson 1,5 af 4
Þormar Jónsson 0,5 af 3
Sigurður Hafberg 2 af 4
Jónas H Jónsson 1,5 af 2
Jón Eðvald Guðfinnsson 0 af 1
Benedikt Einarsson 2 af 2
Halldór Gíslason 1 af 1
Hálfdán Daðason 0,5 af 1
Páll Sólmundur Eydal 0 af 1
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.8.2010 | 13:36
Styrktarreikningur stofnaður fyrir Guðmund Gíslason
Búið er að stofna styrktarreikning fyrir Guðmund Gíslason vegna kostnaðar hans við skákmótaþátttöku næstu tvö árin.
Banki: 1128
Höfuðbók: 05
Reikningsnúmer: 250380
Kennitala: 310864-2699
Markmið Guðmundar næstu tvö árin eru eftirfarandi:
1. Ná 2400 elostigum (alþjóðlegum.)
2. Ná síðasta áfanga alþjóðlegs skákmeistara og verða þar með fyrsti innfæddi Vestfirðingurinn til að hljóta þá nafnbót.
3. Verða Íslandsmeistari í skák.
4. Tefla allar skákir í Íslandsmóti skákfélaga fyrir Bolvíkinga.
5. Tefla 90-100 kappskákir á næstu tveim árum
6. Tryggja mér fast sæti í Landsliði Íslands í skák.
Síðan Guðmundur byrjaði að tefla og stúdera af krafti fyrir tveim árum hefur hann náð eftirtektarverðum árangir.
EM félagsliða 2008: Alþjóðlegur áfangi og frammistaða upp á 2480 skákstig
Skákþing Íslands 2009: 5.sæti með frammistöðu upp á 2403 skákstig
EM félagsliða 2009: Alþjóðlegur áfangi og frammistaða upp á 2459 skákstig. Með þriðja besta árangur allra keppenda sem tefldu á fjórða borði.
Skákþing Íslands 2010: 4.-5.sæti með frammistöðu upp á 2453 skákstig. Leiddi mótið þegar tvær umferðir voru eftir af því.
Afrekshópur Skáksambandsins: Í janúar 2010 var Guðmundur valinn í tólf manna Afrekshóp Skáksambandsins.
Stuðningsmenn Gumma hafa fulla trú á að hann nái markmiðum sínum. Gummi hefur þá skapgerð sem þarf til að ná langt. Hann er sigurvegari í eðli sínu, gefst aldrei upp og veit að til þess að ná árangri þá þarf að leggja á sig mikla vinnu. Til að ná alþjóðlegum styrkleika eins og Gummi stefnir að, þá þarf hann að taka þátt í alþjóðlegum skákmótum. Framboð á alþjóðlegum skákmótum á Íslandi er nokkuð, en einnig er nauðsynlegt að taka þátt í skákmótum erlendis. Kostnaður við níu umferða mót erlendis er um það bil 200 þúsund. Næstu tvö árin er nauðsynlegt fyrir Gumma að tefla á 5-6 slíkum mótum. Beinn kostnaður við það má áætla í kringum eina milljón auk vinnutaps.
Núna er Gummi að taka þátt í Politiken Cup skákmótinu í Kaupmannahöfn og er þegar þetta er skrifað á meðal efstu manna með 5,5 vinninga af 7 mögulegum og að tefla við stórmeistarann Lajos Portish frá Ungverjalandi.
Við vonum að Gumma gangi vel og bendum velunnurum hans á styrktarreikninginn.
Stuðningsmenn
00Styrktarreikningur Gumma Gísla | Breytt 30.12.2011 kl. 08:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.4.2010 | 10:01
Þröstur Þórhallsson með bestu skák ársins 2009
Skák Þrastar á móti Frakkanum Fabien Guilleux var kosin besta skák ársins 2009 í kosningu á SkákHorninu.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)