Færsluflokkur: Bloggar

Íslandsmót skákfélaga - pistill frá Magnúsi Pálma

Tilefni þessarar greinar er uppgjör Gunnars Björnssonar, ritstjóra á skak.is og formanns Skáksambands Íslands, á fyrri hluta Íslandsmóts skákfélaga. Þar fjallar ritstjórinn af sinni alkunnu snilld um árangur einstakra liða, óvænta atburði  og ýmsar pælingar þeim tengdum. Meðal annars fjallar hann um árangur Bolvíkinga og hugsanlegar ástæður fyrir slæmu gengi. 

Í fyrsta lagi tek ég undir það með Gunnari að árangur okkar er töluvert undir væntingum. Það á sérstaklega við um tvær efstu deildirnar. Auðvitað er það þannig að það geta ekki allir unnið og sem betur fer eru gríðarlega margir sterkir skákmenn sem taka þátt í ÍS. Í þessu móti er ekkert gefið eins og úrslitin sýna. Það er fagnaðarefni.

En afhverju er árangur Bolvíkinga undir væntingum? Það er rétt hjá Gunnari að margir í okkar sveit hafa teflt mikið undanfarið. Í byrjun september stóðum við fyrir mikilli skákhátíð í Bolungarvík. Þar fór fram keppni í Landsliðsflokki, Opna Bolungarvíkurmótið, úrslitaviðureign í Hraðskákkeppni taflfélaga og að lokum Hraðskákkeppni Íslands. Hátíðin tókst vel í alla staði þó að alltaf sé hægt að gera betur.Viku eftir að skákhátíðinni lauk stóðum við fyrir alþjóðlegu skákmóti sem var haldið í Reykjavík. Eins og allir vita sem hafa unnið að skipulagningu slíkra móta þá kostar þetta bæði mikla vinnu og peninga. Við viðurkennum fúslega að við gerðum fullt af mistökum í undirbúningi og skipulagningu en á móti kemur að við erum reynslunni ríkari. Það mun koma sér vel þegar vinna hefst við næstu skákviðburði.

Stór hluti af okkar liði tók þátt í þessum mótum og það má vera að menn hafi verið þreyttir þegar ÍS hófst. Eins og Gunnar bendir á þá vorum Hellismenn líka virkir í þessum mótum og ætti því sama að eiga við um þeirra menn. Þegar á heildina er litið þá finnst mér þetta frekar ódýr afsökun fyrir slöku gengi. Algeng skýring á slöku gengi er „æfingaleysi" þannig að hver og einn verður að meta hvað hann/hún getur leyft sér að tefla mikið án þess að þreytast.

Annað atriði sem Gunnar nefnir er Ivanov málið. Við skipulagningu alþjóðlega mótsins vorum við með nokkra erlenda GM í sigtinu. Á síðustu metrunum kom í ljós að þeir forfölluðust flestir og vantaði einn erlendan GM í viðbót til að möguleiki væri á GM normi í mótinu. Ivanov var því fengin til að koma á mótið en aldrei var ætlunin að fá hann í ÍS. Þegar það lá hins vegar fyrir að hann kæmi fannst okkur að hann gæti alveg eins verið nokkra daga lengur og teflt fyrir okkur.

Síðar kom í ljós að Ivanov hefði teflt fyrir TR fyrir mörgum árum en hefði verið á lista hjá þeim síðan. Eftir að hafa skoðað málið óskuðum við eftir við SÍ að hann yrði strikaður út af okkar félagalista. TR sýndi áhuga á að nýta hann í sínu liði og höfðum við ekkert við það sem slíkt að athuga. Félögin leystu málið bara málið sín á milli í góðu með sanngjarni kostnaðarskiptingu enda samstarf félaganna gott.

Þótt mikil keppni sé um að verða Íslandsmeistarar er mikilvægt að „fair play" sé haldið í heiðri. Því fannst okkur ekki viðeigandi að setja TR skilyrði um að Ivanov tefldi ekki á móti okkur. Einnig mætti nefna að þótt Ivanov hafi unnið Miezis þá tók hann líka punkta af hinum liðunum, TR vann t.d. TV!

Gunnar kemur inn á þriðja atriðið með eftirfarandi hætti: „ Þegar Bolvíkingar fengu til liðs við sig alþjóðlegu meistarana í fyrra var það yfirlýst markmið að ná fram öflugu og öguðu liði sem myndi ávallt setja skákina í fyrsta sæti. Óvænt forföll í fjórðu umferð gætu reynst félaginu dýrkeypt í síðari hlutanum"

Í fyrri setningunni vísar Gunnar  til samnings sem við gerðum við þrjá alþjóðlega meistara, þá Dag Arngrímsson, Jón Viktor Gunnarsson og Braga Þorfinnsson. Hugmyndin var að styðja þá í atlögunni að stórmeistaratitli. Þessir samningar eru nýlunda í íslenskri skáksögu. Það er skemmst frá því að segja að við erum mjög ánægðir með samstarfið við strákana og erum mjög stoltir af þeim. Þeirra framkoma,árangur, metnaður og vinnusemi er til mikillar fyrirmyndar.

Varðandi seinni setninguna þá er varla hægt að orða hana betur. Höldum því samt til haga að þetta mál hefur ekkert með ofangreinda drengi að gera. Við í stjórn TB, okkar liðsmenn og stuðningsmenn urðu fyrir gríðarlegum vonbrigðum svo vægt sé til orða tekið. Þetta mál er auðvitað ekki fyrsta sinnar tegundar í skákheiminum. Þetta er heldur ekki í fyrsta skipti sem þetta gerist í ÍS, langt frá því. Í einfeldni minni hélt ég samt að það væru breyttir tímar og menn hefðu áttað sig á að skák og áfengi eiga enga samleið. Ekki undir nokkrum kringumstæðum.  Það væri hægt að hafa mjög mörg orð um þetta mál en við látum þetta nægja í bili. Í vikunni verður stjórnarfundur hjá TB þar sem viðbrögðin verða ákveðin.

Það er þó kannski ágætt að fara yfir hvað það þýðir að fyrir einstakling að tefla í ÍS. Í fyrsta lagi er um að ræða sveitakeppni. Það þýðir að þú tilheyrir einhverri liðsheild sem stefnir að einhverju ákveðnu markmiði. Þú, ásamt hinum í liðinu, berð ábyrgð á árangrinum. Á bak við hvert lið eru stjórnarmenn í sjálfboðavinnu sem leggja á sig ómælda vinnu til að halda starfseminni gangandi. Á bak við hvert lið eru styrktaraðilar. Styrktaraðilarnir geta verið sveitarfélög, fyrirtæki og einstaklingar sem fylgjast að sjálfsögðu með árangrinum og vilja fá upplýsingar um allt sem er í gangi. Á bak við hvert lið eru fjölskyldur sem taka óbeinan þátt í keppninni. Fjölskyldur sem færa fórnir til þess að „þeirra maður" geti teflt heila helgi. Ekki má gleyma sveitungum, fjölmiðlum og öðrum sem fylgjast með mótinu.

Það er því ekki nema sanngjörn krafa frá öllum þessum aðilum að hver og einn geri sitt besta. Tala nú ekki um þá sem fá borgað fyrir að tefla. Að sjálfsögðu geta komið upp óviðráðanlegar aðstæður sem verða til þess að menn geta ekki teflt fyrir sitt lið. Allir hafa skilning á því og málin eru leyst.

Hver fullorðinn einstaklingur sem tekur þátt í ÍS, tala nú ekki um sterkustu skákmenn þjóðarinnar, er fyrirmynd. Fyrirmynd barnanna sem taka þátt og fylgjast með ÍS. Það er mikið ábyrgðarhlutverk að vera fyrirmynd og ber að umgangast samkvæmt því.

Nú eru tveir dagar liðnir frá því fjórða umferðin var tefld. Það þarf vart að taka það fram að ég hef fengið fyrirspurnir frá öllum þessum aðilum um þetta atvik. Ég svara samkvæmt sannleikanum enda er það eini og besti leikurinn í stöðunni. Það er ekki gaman og í raun algjörlega óþolandi og ólíðandi að flytja þeim þessi tíðindi. Þetta er staða sem ég vil ekki sjá á mínu borði aftur.

Ég reyndar trúi því að allir þeir sem bera hag skákhreyfingarinnar fyrir brjósti hljóti að vera mér sammála. Skáksamband Íslands hefur nýverið ályktað um þessi mál. Inntakið er einfaldlega það að skák og vímuefni eru ekki í sama liði. Ég skora á alla skákmenn sem og áhugamenn um skák að bera út boðskapinn!

Magnús Pálmi Örnólfsson

Stjórnarmaður í TB og SÍ


Róbert með áfanga

 Útgáfufélagið Sögur er styrktaraðili mótsins.

 

Beinar útsendingar / Live Games

 Pörun og úrslit / Pairing and results

Skákir (pgn) / Games (pgn)

Allar skákir (pgn) / All games (pgn)

Upplýsingar / Info

skak.is 

Róbert Lagerman tryggði sér þriðja og síðasta áfangann að alþjóðlegum meistaratitli. Hann vann Jón Viktor nokkuð örugglega í lokaumferðinni. Róbert þarf nú bara að ná 2400 stigum til að verða útnefndur alþjóðlegur meistari.

Taflfélag Bolungarvíkur óskar Róberti til hamingju með glæsilegan árangur!

Mótið verður gert betur upp í næstu viku en í kvöld, föstudaginn 25. sept, hefst titilvörn Íslandsmeistaranna í Taflfélagi Bolungarvíkur. Keppt er í Íslandsmóti skákfélaga alla helgina.

Bestu kveðjur, Gummi


Vonbrigði en samt möguleikar á áföngum

Róbert Lagerman gerði stutt jafntefli við Ivanov eins og margir áttu von á. Mikil vonbrigði voru hins vegar að Ingvar Þór skyldi tapa á móti Glud. Ingvar fékk snemma erfiða stöðu og hann sá aldrei til sólar í skákinni.

Möguleikarnir eru samt ekki úr sögunni. Þeir félagar þurfa nú að vinna sínar skákir í lokaumferðinni til að ná áfanga að alþjóðlegum titli.

Nú er að fjölmenna í Síðumúla 37 og styðja við þá!

kv, Gummi

 


Allra augu á Hellismönnum

Færslan í kvöld verður stutt, ég er aðeins of svekktur með að Bragi og Jón Viktor skuli hvorugur vera í áfangaséns eftir daginn. En svona er þetta. Það er samt mikilvægt að klára mótið vel og ná aðeins að hækka á stigum.

Ég var reyndar nokkuð bjartsýnn framan af í seinni skákinni í dag hjá Jóni. Hann tefldi Benko sem hann þekkir mjög vel og mér fannst hann vera að ná fínni stöðu. En svipað og á móti Gumma Gísla í Landsliðsflokknum gerðist allt í einu eitthvað og Jón sat uppi með tapað tafl.

Dagur teflir eiginlega aðeins of skemmtlega þessa dagana. Þetta er allt fyrir augað en úrslitin því miður ekki eftir því. Hann sagði mér áðan að þetta hefði eiginlega byrjað í sumar í mótinu í Kanada. Þó vann hann stórmeistara með glæsilegum fórnum og eftir það væru bara allar skákir þannig!

Dóri hefur líka skemmt áhorfendum vel, þ.e. þeim sem hafa mætt til að horfa. Skákstjórarnir ættu kannski að íhuga að setja hann á sýningarborð svo Snorri og Steini geti séð snilldina hans Dóra Wink

Maður mótsins er klárlega Ingvar Þór Jóhannesson. Hann hleypur á milli húsa og teflir eins og engill! Ég er nokkuð viss um að hann þurfi 1,5 vinning úr skákunum á morgun til að ná áfanga að alþjóðlegum meistaratitli. Í fyrri umferðinni á morgun hefur hann hvítt gegn Jakob Vang Glud. Ef hann vinnur hana tel ég víst að andstæðingurinn í seinni umferðinni verði alveg til í stutt jafntefli. Ingvar mun því án efa leggja allt í sölurnar til að vinna Jakob, hann fær varla betra tækifæri til að krækja í áfangann!

Ég held að það sama gildi um Róbert Lagerman. Hann er með 4 vinninga eins og Ingvar og ég hugsa að hann þurfi því líka 1,5 vinning á morgun til að ná áfanganum. Hann hefur svart í fyrri skákinni á móti Ivanov. Jafntefli væru fín úrslit fyrir Róbert. Þá fengi hann væntanlega hvítt í síðustu skákinni og getur þá teflt hana til sigurs á móti veikari andstæðingi en Ivanov. Ég tippa á stutt jafntefli!

Jæja, nú er færslan er orðinn aðeins lengri en ég ætlaði mér. En þá er ekkert eftir nema hvetja Hellismennina tvo til dáða.

ÁFRAM INGVAR!!!     ÁFRAM RÓBERT!!!

Kv, Gummi


Jón Viktor og Ingvar í möguleikum

Bæði Jón Viktor og Ingvar gerðu jafntefli í sínum skákum í fyrri umferð dagsins. Þeir eiga því enn möguleika á áföngum en það mun ekki ganga hjá þeim að gera bara jafntefli það sem eftir er! Þeir þurfa að halda á og pressa til sigurs. Í næstu umferð hafa þeir báðir svart, Jón Viktor gegn Silasi Lund og Ingvar á móti Birni Þorfinns.

Bragi fékk betri stöðu úr byrjuninni á móti Miezis en síðan fór hann að tefla aðeins of rólega. Kannski var það að trufla hann að vilja ekki taka of mikla áhættu því hann vildi hafa jafnteflið í bakhöndinni. Miezis náði að snúa skákinni sér í vil og þegar tíminn fór að minnka mikið fjaraði endanlega undan stöðunni hans Braga. Eftir skákina sagði Miezis að hann hefði verið ósáttur við stöðuna sem hann fékk eftir byrjunina og að Bragi hefði klárlega átt að geta nýtt sér hana betur. Miezis sagðist líka vera feginn að hafa ekki lent í svona stöðu á móti Bjössa, sköpunargáfa Bjössa hefði klárað skákina! Kannski er bara málið að sameina bræðurna í einn ósigrandi skákmann, Mr. B Thorfinnsson Smile

Þetta tap hjá Braga gerir því miður út um hans möguleika á áfanga. Dagur átti líka stjarnfræðilega möguleika á áfanga og eins og venjulega setti hann flugeldasýningu í gang. Fyrst fórnaði hann manni og síðan drottningunni. Mátið stóð hins vegar á sér og Dagur varð að lokum að játa sig sigraðan. Skemmtileg skák samt sem áður. Glud á þá reyndar ennþá stjarnfræðilega möguleika á áfanganum. Til þess þarf hann að vinna síðustu 3 skákirnar.

Og þá er 7. umferðin að byrja og nú er um að gera að bruna í Síðumúla 37 og styðja strákana í áfangaveiðinum. Svo er tilvalið að koma við í Skákhöllinni á leiðinni heim og kíkja á 2. umferð í Haustmóti TR.

Skákkveðjur, Gummi

 


Spennan magnast

Þá eru línur örlítið teknar að skýrast. Jón Viktor er efstur með 4 vinninga af 5 og þarf hann því 3 vinninga úr síðustu 4 skákunum til að ná áfanga að stórmeistaratitli. Hann fær Ivanov með hvítu í næstu umferð og mun án efa tefla til vinnings. Bragi er hálfum vinning á eftir og því aðeins brattari brekka framundan fyrir hann. Bragi hefur hins vegar átt fínar skákir, t.d. vann hann Þröst nokkuð sannfærandi. Hann hefur hvítt á Miezis í 6. umferð og mun væntanlega tefla til sigurs eins og Jón Viktor. Bæði Bragi og Jón verða samt ennþá í möguleikum ef þeir gera jafntefli þannig að þeir munu passa sig á að taka ekki óþarfa sénsa á móti stórmeisturunum.

Ingvar heldur áfram að koma skemmtilega á óvart og og þarf líklega 2,5 vinning úr síðustu 4 skákum til að ná áfanga að alþjóðlegum titli. Þettu verður hins vegar mjög langur dagur hjá honum á morgun þar sem hann teflir líka í Haustmóti TR. Það er rétt að hvetja skákáhugamenn að kíkja við í Skákhöll TR annað kvöld. Flott mót í gangi þar.

Dagur og Jakob Vang Glud eiga ennþá möguleika á áföngum en það eru eiginlega bara fræðilegir möguleikar sýnist mér. Svo er ekki hægt að útiloka Róbert reynslubanka Lagerman. Sá banki verður seint gjaldþrota!

Nánari úrslit má finna á tenglunum hér að neðan og svo eru beinu útsendingarnar komnar í gang. Einnig er hægt að finna pgn skrár með skákum fyrstu umferða.

Sjáumst í Síðumúla 37!

Gummi


Nokkur orð eftir 3. umferð alþjóðlega mótsins

Þetta verður í styttra lagi í kvöld þar sem ég er einn heima með tvö eldri börnin. Sendi konuna til Svíþjóðar með það yngsta. Vil nota tækifærið og þakka tengdó kærlega fyrir að hugsa um börnin allan sunnudaginn og talsvert í dag líka. Það er gott að eiga góða að, munið það góðir hálsar!

Jón Viktor er greinilega ákveðinn í að næla sér í áfanga, orðinn einn efstur með fullt hús og lagt tvo vini sína að velli. Hann er reyndar pínu óheppinn í 4. umferð því hann mætir ekki stórmeistara. Til þess að ná áfanga að stórmeistaratitli þarf að mæta öllum þrem stórmeisturunum í mótinu og líklega ná 7 vinningum af 9. Spurning hvort 6,5 gætu dugað. En Jón á samt enn mjög góða möguleika á að mæta þeim öllum.

Bragi, Björn og Dagur eru allir með 2 vinninga þannig að þeir eiga líka allir ágæta möguleika á stórmeistaraáfanga. Ingvar er sömuleiðis með tvo vinninga og því í góðum málum með að ná áfanga að alþjóðlegum meistaratitli. Það eru minni kröfur til að ná þeim áfanga.

Þetta skýrist væntanlega allt betur eftir morgundaginn. Þá verða komnar skýrari línur í hverjir eiga raunhæfa möguleika á að krækja í áfanga. Gert er ráð fyrir að sýna nokkrar skákir í beinni útsendingu á netinu frá og með morgundeginum. Það jafnast samt ekkert á við að mæta á staðinn og sjá kappanna í eigin persónu.

Bestu kveðjur,

Gummi

 

skak.is

Chess results

Útgáfufélagið Sögur er styrktaraðili mótsins.


Pistill eftir 1. umferð alþjóðlega mótsins

Það er alltaf ákveðinn léttir þegar 1. umferð klárast. Hvorugur skákstjórinn gat verið í dag og því skiptum ég og Magnús Pálmi vaktinni með okkur. Gunnar Björnsson var með símann á sér ef eitthvað skildi koma uppá. Bjössi náði hádegisflugi frá Vestmannaeyjum og komst því í tæka tíð fyrir kl. 14 með skákskriftarblöðin í annarri hendi og nafnspjöld keppenda í hinni. Seinka varð skákinni hans Ingvars og hófst hún í þann mund sem öllum öðrum skákum lauk. Þetta var því langar dagur fyrir afleysingaskákstjórana! Aðstæður á skákstað eru góðar, vel rúmt um keppendur og flott aðstaða fyrir áhorfendur að sitja og skeggræða um stöðurnar og málefni líðandi stundar.

En þá að skákunum.  Stórmeistararnir Miezis og Ivanov komust ekki fyrr en í kvöld og fá því báðir "bye" í 1. umferð, þ.e. þeir fá hálfan vinning án þess að tefla. Þetta er mjög vel þekkt fyrirkomulag á erlendum mótum en hugsanlega í fyrsta skiptið sem þetta er gert á Íslandi! Jón Viktor, Bragi og Dagur unnu svo kallaða skyldusigra, lögðu stigalægri andstæðinga nokkuð örugglega að velli. Alltaf gaman að fylgjast með Degi tefla, sóknin í fyrirrúmi og mikið að gerast á hans skákum. Bjössi vann líka sína skák en samt ekki eins sannfærandi. Staðan var mjög flókin og Jóhann fórnaði hrók og manni fyrir mátsókn. Bjössi var búinn að vera í tímapressu allmarga leiki en náði að koma kóngnum í skjól. Jóhann endaði með að falla á tíma þegar hann fann ekki leið til að halda mátsókninni áfram. Róbert gerði öruggt jafntefli með svart en Þröstur náði aðeins jafntefli með hvítu. Andstæðingur Þrastar sagðist ekki hafa teflt á svona móti í 12 ár og var bara sáttur með skákina. Soren var reyndar manni yfir en Þröstur sótti stíft og endaði skákin á þrátefli.

Menn dagsins voru Stefán Bergsson og Ingvar Þór. Stefán virtist ekki fá góða stöðu úr ítalska leiknum en hann tefldi miðtaflið vel. Hann saumaði jafnt og þétt að Silas Lund og í endataflinu hafði Stefán drottningu og 2 peð á móti hróki og 3 peðum. Staðan var hins vegar þannig að Silas gat stillt upp miklum varnarmúr og þurfti ýmsar tilfæringar til að brjóta hann á bak aftur. Ég og Rúnar Berg gátum ekki betur séð en að Stefán hefði átt að svíða stöðuna hægt og koma Silasi í leikþröng. Stefán lék hins vegar af sér peði og eftir það var staðan steindautt jafntefli. Ingvar byrjaði daginn á að gera jafntefli við Lenku í Haustmóti TR. Úr TR skákhöllinni þaut Ingvar upp í Bridgesamband og settist að tafli við Daniel Semcesen, sem hafði fallist á að byrja skákina kl. 17. Þegar Ingvar kom hafði hann þegar tapað talsverðum tíma. Hann tefldi hins vegar fína skák og þrátt fyrir að tefla marga leiki undir lokin í mikilli tímapressu náði hann að bæta stöðuna jafnt og þétt. Daniel gafst upp þegar hrókur var að falla í valinn og var það svo ein erfiðasta bílferð sem ég hef farið, þegar ég skipuleggjandinn sem talaði Daniel inná að seinka skákinni, keyrði hann heim. En Daniel var nú samt aðallega ósáttur við sína eigin taflmennsku.

2. umferð hefst kl. 11 í Bridgesambandinu Síðumúla 37. Tvær Íslendingaviðureignir vekja strax sérstakan áhuga minn, Björn - Jón Viktor og Dagur - Bragi. Allir fjórir ætla sér að næla í áfanga að stórmeistaratitli og verða því að gjöra svo vel og vinna! Dagur vann Braga með hvítu í Landsliðsflokknum og rauk Bragi á dyr eftir þá skák. Er stund hefndarinnar runnin upp?

Úrslit 1. umferðar og pörun 2. eru hér að neðan. Skákirnar eru ekki sýndar beint þannig að það er um að gera að mæta og fylgjast með.

Skákkveðja, Gummi formaður og afleysingaskákstjóri þegar mikið liggur við.

 

Útgáfufélagið Sögur er styrktaraðili mótsins.

 

Pörun 2. umferðar: 

Name

Res.

Name

Bjorn Thorfinnsson-Jon Viktor Gunnarsson
Dagur Arngrimsson-Bragi Thorfinnsson
Normunds Miezis-Ingvar Thor Johannesson
Silas Lund-Jakob Vang Glud
Mikhail M Ivanov-Stefan Bergsson
Robert Lagerman-Throstur Thorhallsson
Soren Bech Hansen-Daniel Semcesen
Nikolai Skousen-Johann Ingvason
Jorge Rodriguez Fonseca-

Halldor Einarsson

 

Úrslit 1. umferðar:

NameRes.Name
Skotta I½  -  ½Normunds Miezis
Jakob Vang Glud½  -  ½Robert Lagerman
Ingvar Thor Johannesson1  -  0Daniel Semcesen
Jon Viktor Gunnarsson1  -  0Nikolai Skousen
Skotta II½  -  ½Mikhail M Ivanov
Throstur Thorhallsson½  -  ½Soren Bech Hansen
Halldor Einarsson0  -  1Dagur Arngrimsson
Bjorn Thorfinnsson1  -  0Johann Ingvason
Stefan Bergsson½  -  ½Silas Lund
Bragi Thorfinnsson1  -  0Jorge Rodriguez Fonseca

 


Alþjóðlegt mót Taflfélags Bolungarvíkur og Útgáfufélagsins Sögur

 chess1.jpg

Daganna 20-24.september fer fram alþjóðlegt skákmót á vegum Taflfélags Bolungarvíkur. Tilgangur mótsins er að gefa íslenskum skákmönnum tækifæri til að berjast um áfanga að alþjóðlegum titlum.

Um er að ræða hálfopið mót og er gert ráð fyrir að keppendur verði að hámarki 24 talsins. Alls hafa 20 skákmenn staðfest þátttöku sína, þar af 8 útlendingar.

Pörun og úrslit / Pairing and results

Skákir (pgn)  / Games (pgn)

Upplýsingar / Info

Dagskrá mótsins er á þessa leið:

1.umferð - sunnudaginn 20.september kl.14.00

2.umferð - mánudaginn 21.september kl.11.00

3.umferð - mánudaginn 21.september kl.17.00

4.umferð - þriðjudaginn 22.september kl.11.00

5.umferð - þriðjudaginn 22.september kl.17.00

6.umferð - miðvikudaginn 23.september kl.11.00

7.umferð - miðvikudaginn 23.september kl.17.00

8.umferð - fimmtudaginn 24.september kl.11.00

9.umferð - fimmtudaginn 24.september kl.17.00

Eins og dagskráin ber með sér er taflmennskan ansi stíf en slíkt fyrirkomulag er farið að tíðkast á mörgum mótum erlendis.

Skráðir keppendur:

 

Titill

Nafn

Stig

Land

1

GM

Normunds Miezis

2558

LAT

2

IM

Jakob Vang Glud

2476

DEN

3

FM

Daniel Semcesen

2465

SWE

4

IM

Jon Viktor Gunnarsson

2462

ISL

5

GM

Mikhail M. Ivanov

2459

RUS

6

GM

Throstur Thorhallsson

2433

ISL

7

IM

Dagur Arngrimsson

2396

ISL

8

FM

Bjorn Thorfinnsson

2395

ISL

9

IM

Silas Lund

2392

DEN

10

IM

Bragi Thorfinnsson

2360

ISL

11

FM

Robert Lagerman

2351

ISL

12

FM

Ingvar Thor Johannesson

2323

ISL

13

 

Nikolai Skousen

2286

DEN

14

FM

Sören Bech Hansen

2284

DEN

15

FM

Halldor Gretar Einarsson

2255

ISL

16

 

Johann Ingvason

2119

ISL

17

 

Stefan Bergsson

2070

ISL

18

 

Jorge Fonseca

2018

ESP

     
     

Daði Guðmundsson Bolungarvíkurmeistari 2009

DadiGudmunds 1

Daði Guðmundsson varði 29 ára gamlan Bolungarvíkurmeistaratitil sinn í kvöld með því að vinna Unnstein Sigurjónsson í úrslitaskák. Jöfn og hörð keppni var um sigur í mótinu og réðu ungu mennirnir ekkert við öldunginn og læriföðurinn.

 

               Nafn                       AtStig    Vinningar    SB
1    Daði Guðmundsson           1950         8,5          42,5
2    Unnsteinn Sigurjónsson     2020         8,5         38,25
3    Stefán Arnalds                  1810          8           35
4    Halldór Grétar Einarsson    2040          8           34,5
5    Guðmundur M Daðason     2060           7          30,5
6    Magnús K Sigurjónsson     1900         6,5         29,75
7    Sigurður Ólafsson             1895         6,5         26
8    Gísli Gunnlaugsson            1810          5          15
9    Einar Garðar Hjaltason      1620         3,5         7,75
10    Sigurður J Hafberg          1865         3            8
11    Óskar Elíasson                1570         1,5         4,25
12    Jakub Kozlowski                0            0            0


Töfluna með einstökum úrslitum má sjá á: http://install.c.is/bolungarvik2009/opbol09.htm 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband